Jón Gnarr á Bessastaði

Jón Gnarr á Bessastaði

Ég skal hjálpa til

Mynd á Facebook

1) Smelltu á þennan hlekk

2) Smelltu á choose a photo og veldu mynd af þér inn í rammann

3) Vistaðu nýju myndina hjá þér

4) Settu nýju myndina inn sem profile mynd á Facebook

Fáðu fréttir af framboðinu og pistla frá Jóni beint í pósthólfið þitt

Jón Gnarr er fæddur í Reykjavík 1967, yngstur fjögurra systkina. Foreldrar hans voru Bjarney Ágústa Jónsdóttir húsfreyja og Kristinn Óskarsson lögregluþjónn.

Jón ólst upp í Fossvogi en var jafnan sendur í sveit á sumrin eins og algengt var með krakka á þeim tíma. Kom þó fyrir að hann eyddi sumrinu með pabba sínum á Hótel Bjarkalundi þar sem faðir hans starfaði sem bensínafgreiðslumaður. Jón var í sveit á bænum Stekkjarhóli í Geiradal og Þrastarhóli í Hörgársveit. Þar kynntist hann heyskap ásamt almennum bústörfum og þótti snemma efni í góðan bónda.

Jón á óhefðbundna skólagöngu að baki. Hann gekk í Fossvogsskóla sem barn og svo Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði. Eftir það var hann nemandi í mörgum framhaldsskólum og loks í Námsflokkum Reykjavíkur. Þar segir hann að Guðrún Halldórsdóttir skólastjóri námsflokkanna hafi hreinlega tekið hann að sér og hann eigi henni margt að þakka. Jón er félagi í Félagi íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum og Rithöfundasambandi Íslands þar sem hann hefur setið í stjórn frá árinu 2018. Hann er með MFA gráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands.

Jón á gríðarlega fjölbreyttan starfsferil að baki og er þekktur grínisti, útvarpsmaður, rithöfundur og leikari. Hann á langan feril að baki í sviðslistum bæði sem höfundur, leikari og leikstjóri. Jón hefur skrifað og leikið í fjölda sjónvarpsþátta á borð við Fóstbræður, Nætur-, Dag- og Fangavaktina þar sem hann gerði Georg Bjarnfreðarson ógleymanlegan. Þá hefur hann einnig skrifað, leikstýrt og leikið í ófáum Áramótaskaupum. Jón hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum eins og Kona fer í stríð, Gullregn, Íslenski draumurinn og Bjarnfreðarson, til að nefna einhverjar. Hann hefur fengið fjölda tilnefninga, verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín, unnið til 12 Edduverðlauna og var valinn Leikari ársins í tvígang. Hann hlaut tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir leikrit sitt SÚPER sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2019 og lék einnig eitt aðalhlutverkið. Árið 2020 bar Jón sigur úr býtum í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins fyrir leikritið Verkið sem sett var upp í Hádegisleikhúsinu 2023.

Hjá Leikfélagi Akureyrar lék Jón sjálfan Skugga Svein í leikstjórn Mörtu Nordal og svo í leikritinu And Björk of course eftir Þorvald Þorsteinsson.
Jón hefur starfað í útvarpi nær samfellt frá árinu 1996. Þekktastur er hann eflaust fyrir þættina Tvíhöfða sem hann hefur gert í samstarfi við Sigurjón Kjartansson. Að auki var hann með Sirkus Jóns Gnarr á Rás 2, hlaðvarpsþættina Kaupfélagið hjá Bændablaðinu og Gnarristan hjá Hljóðkirkjunni í samstarfi við Baldur Ragnarsson en þar tók hann fjölda viðtala við fræðafólk og vísindamenn.

Jón hefur einnig samið fjölda þekktra laga í samstarfi við Sigurjón Kjartansson, bæði í útvarpsþættinum Tvíhöfði og í Fóstbræðrum. Má þar nefna Þriðjudagskvöld, Gefum honum von og Fyrirgefðu að ég rotaði þig um jólin. Jón er líka annar höfunda lagsins um Prumpufólkið sem er eitt vinsælasta barnalag Íslandssögunnar.
Jón er einnig farsæll rithöfundur og hefur skrifað margar bækur. Þekktastar bóka hans eru skáldævisögurnar Indjáninn, Sjóræninginn og Útlaginn. Bækur Jóns hafa verið þýddar á fjölda tungumála og gefnar út um allan heim.

Jón hefur einnig látið til sín taka í stjórnmálum og leiddi Besta flokkinn til sigurs í sveitarstjórnarkosningum árið 2010. Hann var borgarstjóri Reykjavíkur á árunum 2010 til 2014 og beitti sér sérstaklega fyrir friðar- og mannréttindamálum í starfi sínu, mótmælti mannréttindabrotum og tók virkan þátt í Hinsegin dögum. Jón hlaut hin virtu friðarverðlaun LennonOno grant for peace árið 2014 fyrir störf sín í þágu mannréttinda. Árið áður var hann valinn Húmanisti ársins hjá Siðmennt og hlaut einnig Mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 “fyrir mikilvægt framlag einstaklings á öðrum vettvangi í þágu hinsegin fólks.”

Jón er giftur Jógu Gnarr Jóhannsdóttur nuddara. Þau eiga fimm börn og búa í Reykjavík.

Jón og Noam Chomsky

Certainly my favorite mayor. No competition, in fact.”
—Noam Chomsky
Shopping Cart